#18 Skoðanir Ara Mássonar, bróður Skoðanabræðra

Skoðanabræður - En podcast av Bergþór Másson - Fredagar

Kategorier:

Lífið er veisla, segir höfundur þess frasa, Ma King, blóðbróðir Skoðanabræðra, sem forðum var dæmdur til ævarandi hippadóms. En það er næs og ráðstöfunin sver sig ekki í ætt við örlög Sýsifosar, hún er jákvæð, eins og rætt er í þessum þætti. Líklega öllu betri en líf ritstjóra Skoðanabræðra. Þessi þáttur er einn af tveimur bónusþáttum Skoðanabræðra, sem þeir láta ókeypis í té hlustendum sínum eftir þrálátar óskir um meira efni, meiri Skoðanabræður, meiri veislu. Kalli þeirra er svarað. Kalli Skoðanabræðra eftir styrkjum, þ.e. mannsæmandi launum fyrir sín störf, ætti líka að vera svarað og það getur verið gert með því að AURA eða KASSA í númerið 661-4648. Síðasta tækifæri til að koma skilaboðum á framfæri í þættinum er núna. En áfram verður hægt að styrkja um aldur og ævi, á meðan nafn Skoðanabræðra lifir. Ari Ma (Másson) varð auðvitað að koma í viðtal. Hann er sjö árum eldri en yngsti Skoðanabróðirinn, Snorri, og fimm árum eldri en Bergþór. Hann kenndi þeim flest sem þeir kunna, þó að síðar meir hafi þeir lært sitthvað upp á eigin spýtur og hér snýr hann aftur til að kenna þeim allt upp á nýtt. Hann hefur búið mikið til erlendis síðasta að verða áratug, í Taílandi, Suður-Ameríku, í Nepal, í Amsterdam, í Marokkó, í Indlandi, í Tyrklandi, á Spáni, í Bandaríkjunum og hver veit hvar í andskotanum. Þar hefur hann látið sér detta í hug allan fjandann til að gera, og gæti nú hvergi annars staðar hugsað sér að búa en einmitt þar: alls staðar. Hann vinnur þó sem landvörður á Íslandi á sumrin. Ýmislegt rætt í þessum þætti, draumarnir, hugsjónirnar, eiturlyfin ef þau eru einhver, og reynt að komast að niðurstöðu um hvernig má lifa fordómalaus í þessari guðsvoluðu veröld. Hugleiðsla kann að vera lykilorð í því sambandi. Og klifur! Veröldin veltist um svo fast en Skoðanabræður og þeirra bróðir skeyta ekki um það, þeir halda áfram siglingu sinni en haga síður en svo seglum eftir vindi, engir hentistefnumenn, heldur bara saklausir samfélagsrýnar sem hafa þennan óljósa grun um, að lífið sé eftir allt veisla.