Stóra brauðtertubókin, 100. vinkillinn og Steinunn Lilja lesandi vikunnar
Mannlegi þátturinn - En podcast av RÚV

Kategorier:
Brauðtertan hefur fylgt okkur Íslendingum lengi og hún er borin á borð bæði á gleði- og sorgarstundum. Sagan segir að danska leikskáldið Ludwig Holmberg hafi kynnt til sögunnar samlokutertu í leikverki um aldamótin 1700 en það var svo í kringum 1940 sem samlokutertur, eða brauðtertur (smårgåstorta), urðu vinsælar í Svíþjóð og stuttu síðar í Finnlandi og svo hér á Íslandi var fjallað um brauðtertur í íslenskum tímaritum árið 1953. Brauðterta með rækjusalati er það sem flestir kalla hina klassísku brauðtertu en margir elska hangikjötsbrauðtertuna og enn aðrir skinkusalatsbrauðtertuna. Í dag er brauðtertugerð orðin að keppnisgrein á Íslandi. Friðrik V. Hraunfjörð og Erla Hlynsdóttir eru tvö af sex höfundum Stóru Brauðtertubókarinnar sem var að koma út og þau komu í brauðtertuspjall í þáttinn í dag. Við fengum svo vinkil frá Guðjóni Helga Ólafssyni í dag og þessi var sá 100. í röðinni frá honum. Guðjón Helgi fjallaði að þessu sinni um svæði sem stundum lendir í fréttum hjá okkur, borgina Karachi í Pakistan. Rætt er um fasteignaauglýsingu sem bar fyrir augu pistlahöfundar á rápi sínu um internetið, en þar eru falboðnar nokkrar lóðir við sjóinn í Karachi og auk þess var minnst á mannskætt flóð sem var á þessum slóðum fyrir fjórum árum. Og lesandi vikunnar í þetta sinn var Steinunn Lilja Emilsdóttir verkefnastjóri á Ónæmisfræðideild Landspítalans. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og svo hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum lífið. Tónlist í þættinum Bakkelsi / Baggalútur (Bragi Valdimar Skúlason) Waterloo Sunset / The Kinks (Ray Davies) Afturábak / Moses Hightower (Magnús Trygvason Eliassen, Steingrímur Karl Teague og Andri Ólafsson, texti Andri Ólafsson) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON